Styrkúthlutun Uppbyggingarsjóðs 2024

Fyrir skömmu voru veittir styrkir úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra fyrir árið 2024. Úthlutað var samtals 73,6 m.kr. til 76 verkefna í þremur flokkum; stofn- og rekstrarstyrkir á sviði menningar, menningarstyrkir og atvinnuþróunar- og nýsköpunarstyrkir.

Meðal styrkþega er Bryndís Fjóla Pétursdóttir, frumkvöðull og félagi í AkureyrarAkademíunni, en hún fékk styrk til að vera með ráðstefnu í Menningarhúsinu í Hofi á Akureyri þann 20. apríl 2024 um huldufólk og álfa í heimabyggð.

Á ráðstefnunni verður sjónum beint að huliðsheimum á heildrænan hátt, út frá menningararfi, þjóðtrú og ferðaþjónustu á Íslandi en sérstaklega í Eyjafirði þar sem verðmætum heimildum hefur verið safnað og haldið til haga. Ráðstefnan fer fram á íslensku og er fyrsta sinnar tegundar hér á landi, og er hún tileinkuð menningararfinum okkar sem snýr að huldufólki og álfum.

Við í AkureyrarAkademíunni óskum Bryndísi Fjólu innilega til hamingju með styrkinn.