Sagan

Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, sem í daglegu tali var kallað AkureyrarAkademían, var stofnað vorið 2006. Fyrirmyndin var sótt til ReykjavíkurAkademíunnar, sem stofnuð var árið 1997.
 
Markmiðin með stofnun félagsins voru að bjóða skapandi einstaklingum öruggan samastað til að sinna rannsóknum eða öðrum hugðarefnum, vera aflvaki rannsókna, miðla vísindum og fræðum út í samfélagið og stuðla að umræðum. 
 
Árið 2014 var ákveðið að leggja félagið niður og setja á fót sjálfseignarstofnun með staðfestri skipulagsskrá sem fékk heitið AkureyrarAkademían, og tók þá við rekstri og starfi forvera síns. 
 
Lengi vel var starfsemin til húsa í gamla Húsmæðraskólanum að Þórunnarstræti 99 sem tekinn var á leigu hjá Háskólanum á Akureyri en síðar á fjölmörgum stöðum í bænum. Nú er aðsetrið í verslunar- og þjónustumiðstöðinni við Sunnuhlíð 12, Akureyri. 
 
Flestir þeirra sem hafa notið vinnuaðstöðu hjá félaginu og Akademíunni eru námsmenn við innlenda og erlenda háskóla en þar að auki fjölbreyttur hópur vísinda-, fræði- og listamanna sem og frumkvöðla. 
 
Starfsemi félagsins og Akademíunnar hefur gefið fræðimönnum, frumkvöðlum, háskólanemum, listamönnum, vísindamönnum og fleirum, á Akureyri og nágrenni, svigrúm til menntunar, sköpunar og rannsókna á heimaslóðum.
 
Þverfaglegt samfélag einstaklinga með fjölbreyttan bakgrunn hefur skapað frjótt samtal og kveikt hugmyndir um fjölmarga viðburði fyrir almenning sem hafa átt þátt í að auðga mannlíf og menningarstarf á Akureyri. 
 
AkureyrarAkademían hefur lengi átt farsælt samstarf við Háskólann á Akureyri og ReykjavíkurAkademíuna og í samvinnu við Akureyrarbæ er einstaklingum boðið upp á endurgjaldslausa aðstöðu til að vinna að þróun nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna. Einnig hafa fjölmargar opinberar stofnanir, félög og fyrirtæki unnið með Akademíunni að fræðslu- og menningarmálum eða lagt þeim lið.