Samtal um hamingjuna. Edda Björgvinsdóttir og Gunnar Hersveinn

Þar munu Edda Björgvinsdóttir og Gunnar Hersveinn meðal annars ræða samband húmors og hamingju og hvers vegna ástæða er til að efla húmor og gleði í lífinu.

Edda Björgvinsdóttir er leikkona og M.A. í mennta- og menningarstjórnun. Meistararitgerð Eddu fjallar um „Húmor í stjórnun“ og nýverið lauk hún diplómanámi í jákvæðri sálfræði frá HÍ. Edda hefur sl. 20 ár haldið ótalmörg námskeið og fyrirlestra hjá fyrirtækjum, félagasamtökum, hópum og opinberum stofnunum. Vinsælustu fyrirlestrar Eddu á vinnustöðum fjalla um húmor sem stjórntæki og gagnsemi hans í mannlegum samskiptum og til að auka starfsánægju.

Gunnar Hersveinn er rithöfundur og heimspekingur. Hann hefur tekið virkan þátt í samfélagsumræðunni til margra ára, haldið fyrirlestra og námskeið og skrifað bækur um gildi lífs og þjóðar. Þær heita Gæfuspor - gildin í lífinu, Orðspor - gildin í samfélaginu, Þjóðgildin og Hugskot - skamm-, fram- og víðsýni (2016) sem hann skrifaði með Friðbjörgu Ingimarsdóttur.

Nemendur Kvikmyndaskóla Íslands munu taka viðburðinn upp og verður hann gerður aðgengilegur á Youtube.

AkureyrarAkademían, í samstarfi við Skapandi sumarstörf í Rósenborg, mun opna sýningu nemenda í skapandi sumarstörfum en þeir hafa í sumar unnið að því að fanga hamingjuna eins og hún birtist þeim, með sköpunargleðina að leiðarljósi. Sýningin opnar kl. 13:00 laugardaginn 27. ágúst í Hlöðunni, Litla-Garði.

Viðburðurinn er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og aðgangur er ókeypis.