Fortíðin í nýju ljósi - fimmtudagsfyrirlestur með dr. Guðna Th. Jóhannessyni, sagnfræðingi, Minjasafninu á Akureyri, 5. febrúar, kl. 17:00. Árla morguns hinn 14. maí 1973 lagðist breska eftirlitsskipið Othello að bryggju á Akureyri. Sumarið áður hafði fiskveiðilögsaga Íslands verið færð út í 50 sjómílur en Bretar neituðu að viðurkenna nýju línuna og hafði því komið til átaka á miðunum. Hiti var í Íslendingum og það sýndi sig þennan dag í höfuðstað Norðurlands. Í erindinu verður rás viðburða rakin og komið víða við, ekki aðeins niðri á höfn heldur einnig í Ísbúðinni, Kjötiðnaðarstöðinni, lögreglustöðinni og síðast en ekki síst á sal menntaskólans. Að lokum verður rætt hvaða lærdóm megi draga af „Othello-slagnum“ og öðrum þáttum í þorskastríðssögu okkar Íslendinga.
Fyrirlesturinn er hluti af viðburðaröð sem er samstarfsverkefni Akureyrarakademíunnar, Sagnfræðingafélags Íslands og Minjasafnsins á Akureyri.
Hótel Akureyri styður við viðburðinn.