Fortíðin í nýju ljósi! Fyrirlestraröð á Minjasafninu á Akureyri.

Fortíðin verður í forgrunni sem aldrei fyrr sex fimmtudaga í febrúar og mars. Minjasafnið á Akureyri, AkureyrarAkademían og Sagnfræðingafélag Íslands standa að viðburðaröð um sagnfræði þar sem boðið verður upp á fjölbreytta fyrirlestra um ljósmyndir, lykt, sjúkdóma, persónur og átök svo nokkuð sé nefnt.

Dr. Guðni Th. Jóhannesson, prófessor við Háskóla Íslands, heldur opnunarfyrirlesturinn 5. febrúar. Hvað gerðist á togarabryggjunni 14. maí 1973 þar sem Othello lá við bryggju? Hvaða lærdóm má draga af því og öðrum þáttum í þorskastríðssögu Íslendinga?

Fyrirlestrarnir eru haldnir á Minjasafninu á Akureyri fimmtudagana 5.,12. og 19. febrúar og mars kl. 17:00 og er aðgangur ókeypis. Fylgist með á samfélagsmiðlum eða heimasíðum samstarfsaðila fyrirlestranna.

Dagskrá:

Febrúar

  • 5. febrúar. Othello-slagurinn á Akureyri og aðrar þorskastríðssögur sem læra má af ef vilji er fyrir hendi. Dr. Guðni Th. Jóhannesson.
  • 12. febrúar. Akureyrarveikin og ME-sjúkdómurinn. Óskar Þór Halldórsson og dr. Friðbjörn Sigurðsson.
  • 19. febrúar. Spegill þjóðar - fréttamyndir í 50 ár og sagan á bakvið þær. Gunnar V. Andrésson og Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Mars

  • 5. mars. Ilmur, angan og fnykur: Ýmis lykt í íslenskum heimildum frá 19. og 20. öld. Ragnhildur Björt Björnsdóttir, sagnfræðingur.
  • 12. mars. Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur (1809–1871) og brotakenndar heimildir. Dr. Erla Hulda Halldórsdóttir.
  • 19. mars. Skreytingar í handritum síðari alda og þáttur af einum norðlenskum listaskrifara. Kjartan Ísleifsson, sagnfræðingur.