Bakarís-fyrirlestur: Það þarf þorp: Seinfærir foreldrar og glíman við kerfið. Þriðjudaginn 11. nóvember nk. kynnir dr. Sara Stefánsdóttir, iðjuþjálfi og lektor við heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri, doktorsrannsókn sína. Kynningin fer fram í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð og hefst kl. 16:00.
Í rannsókninni er rýnt í hvernig seinfærum foreldrum á Íslandi er veittur stuðningur í ljósi þróunar á réttindum fatlaðs fólks. Gögnum var m.a. safnað með viðtölum við foreldra, fjölskyldu þeirra, réttindagæslumenn fatlaðs fólks, og starfsmenn barnaverndar og félagsþjónustu. Niðurstöðurnar varpa ljósi á hvernig sú þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum á vettvangi mannréttinda er ekki fullnægjandi til þess að ryðja úr vegi samfélagslegum og kerfislægum hindrunum þegar kemur að seinfærum foreldrum.
Bakarís-fyrirlestrar eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.
Öll hjartanlega velkomin!