Bakarís-fyrirlestur Skafta Ingimarssonar, sagnfræðings, í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð, miðvikudaginn 22. október nk. kl. 16:00.
Í erindinu fjallar Skafti Ingimarsson um Einar Olgeirsson (1902 – 1993), ritara Kommúnistaflokks Íslands (1930–1938) og formann Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins (1939–1968). Fjallað verður um æsku Einars og uppvöxt á Akureyri, greint frá námi hans í Menntaskólanum í Reykjavík, Kaupmannahafnarháskóla og Friedrich-Wilhelm Universität í Berlín og sýnt hvernig námsdvölin í Þýskalandi mótaði stjórnmálaskoðanir hans fyrir lífstíð. Þá verður sagt frá þátttöku Einars í verkalýðs- og stjórnmálabaráttunni á Akureyri á millistríðsárunum og á það bent að enginn stjórnmálamaður lagði fram viðlíka skerf og hann til uppbyggingar verkalýðshreyfingarinnar á Norðurlandi á þriðja áratug síðustu aldar, þegar Íslendingar voru að brjótast úr fátækt til bjargálna.
Erindi Skafta byggir á nýrri bók hans: Nú blakta rauðir fánar: saga kommúnista- og sósíalistahreyfingarinnar á Íslandi 1918–1968. Bókin er að stofni til doktorsritgerð Skafta sem hann varði við Háskóla Íslands vorið 2018.
Bakarís-fyrirlestrar eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.
Öll hjartanlega velkomin!