Sérðu þig, kona? (Ó)sýnileiki kvenna á sýningum íslenskra menningarminjasafna

Hvernig endurspegla sýningar íslenskra menningarminjasafna konur? Hver er hlutur þeirra í frásögnum af lífi og menningu íslensku þjóðarinnar? Hvaða hlutverki gegna þær? Rannsóknir sem gerðar hafa verið á menningarminjasöfnum í hinum vestræna heimi sýna að líf, menning og reynsla kvenna er smættuð og jaðarsett í sýningum þeirra. Hlutur þeirra er einsleitur, gloppóttur og misvísandi í frásögnum sem aðallega taka mið af reynsluheimi karla. Framsetningar einkennast aðallega af staðalmyndum um kyngervi kvenna á sama tíma og kynjablinda einkennir sýningagerð.

Í erindinu mun Arndís Bergsdóttir doktorsnemi í safnafræði við Háskóla Íslands fjalla um doktorsrannsókn sína sem er sú fyrsta um framsetningu kynjanna á íslenskum menningarminjasöfnum. Arndís nýtir fyrrgreindar rannsóknir sem samanburð til að að skoða hvernig framsetningu kvenna er háttað hér á landi, og hvort íslenskar konur eigi þess kost að endurspegla eigin tilveru, líf og reynslu í sýningum íslenskra þjóðminja- og byggðasafna.

Allir velkomnir!