AkureyrarAkademían
Hafa samband
  • Forsíða
  • Fréttir
  • Viðburðir
    • Viðburðir
    • Fyrirlestraröð
    • Námskeið
    • Ráðstefnur og málþing
  • Fræðastörf
    • Rannsóknir AkAk
    • Rannsóknir einstaklinga
  • Innanhúsfólk
  • akureyrarakademían
    • Framkvæmdastjóri
    • Vinnuaðstaða
    • Stjórn
    • Skipulagsskrá
    • Skjalasafn
    • Gerast fulltrúi
  • Tenglar
​19. júní 2014

Skipulagsskrá
fyrir AkureyrarAkademíuna.

1. gr.
Sjálfseignarstofnun.


Sjálfseignarstofnunin heitir AkureyrarAkademían. Stofnunin er með sérstaka stjórn, stofnuð í samræmi við lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Heimili og varnarþing er á Akureyri. 

2. gr.
Stofnendur.


Stofnendur AkureyrarAkademíunnar eru þeir fræðimenn sem staddir voru á stofnfundi og undirrituðu fyrstu skipulagsskrá stofnunarinnar. Ennfremur þeir fræðimenn sem boðaðir voru til stofnfundar, en voru fjarverandi, enda höfðu þeir eða umboðsmenn þeirra samþykkt skipulagsskrána með undirritun sinni. Nöfn þeirra eru: Arndís Bergsdóttir, kt: 050168-4259; Guðmundur Árnason, kt: 020353-5709; Jakob Þór Kristjánsson, kt: 180365-3039; Margrét Guðmundsdóttir, kt: 300759-3199; Sigurður Bergsteinsson, kt: 030156-4719; Sigurgeir Guðjónsson, kt: 280865-3979; Skafti Ingimarsson, kt: 221071-4849; Valgerður S. Bjarnadóttir, kt: 230182-3109; Þóra Pétursdóttir, kt: 260278-5929. 

3. gr.
Stofnfé.


Stofnfé AkureyrarAkademíunnar er kr. 1.083.000.- og er lagt fram af Félagi sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, kt: 550606-2080. Stofnfé er óskerðanlegt. Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim verðmætum er hún kann að eignast síðar. Stofnendur hafa engin sérréttindi í stofnuninni.

4. gr.
Starfsstefna og markmið.


Starfsstefna AkureyrarAkademíunnar er endurskoðuð á fjögurra ára fresti af stjórn í samræmi við eftirfarandi markmið sem eru grunnur að starfseminni:
a) að vera aflvaki fræðilegra rannsókna á Norðurlandi og miðlunar þeirra, með sérstakri áherslu á þverfaglegar rannsóknir og alþjóðlegt samstarf,
b) að reka miðstöð sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi,
c) að efla grunnrannsóknir á atvinnulífi, náttúrufari, menningu og samfélagi á Norðurlandi,
d) að vera vettvangur umræðu um samfélag og menningu á Norðurlandi,
e) að efla samstarf einstaklinga, stofnana og atvinnulífs á Norðurlandi, með sérstakri áherslu á menntun, menningu, rannsóknir og nýsköpun,
f) að stuðla að samstarfi einstaklinga, atvinnulífs, stofnana og opinberra aðila á Norðurlandi,
g) að annast kennslu á háskólastigi í samstarfi við háskóla,
h) að standa að fræðiritaútgáfu s.s. með útgáfu bóka, tímarita um fræði og menningu og kennslubókagerð.
    Heildarstefna AkureyrarAkademíunnar skal endurspegla ofangreind markmið.

5. gr.
Húsnæðismál.


Stjórn sér um að stofnunin sé í viðunandi húsnæði. Stjórn er heimilt að leigja eða kaupa húsnæði fyrir stofnunina.

6. gr.
Rannsóknir og fræðastörf.


Stjórn er heimilt að veita utanaðkomandi fræðimönnum og áhugamönnum er sinna fræði- eða ritstörfum vinnuaðstöðu í húsnæði stofnunarinnar gegn mánaðarlegu gjaldi.

7. gr.
Starfsmannahald.


Stjórn ræður verkefnisstjóra í fullt starf eða hlutastarf og ákvarðar um starf hans og kjör. Verkefnisstjóri er talsmaður stofnunarinnar, annast daglegan rekstur, fer með stjórn fjármála og annast reikningsskil í umboði stjórnar. Verkefnisstjóri ber ábyrgð gagnvart stjórn. Hann vinnur að framgangi stefnumála stofnunarinnar, öflun verkefna og fjár og því sem stjórn ákvarðar hverju sinni. Verkefnisstjóri ræður starfsfólk í samráði við stjórn og situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.

8. gr.
Fulltrúaráð AkureyrarAkademíunnar.


Skráðir fulltrúar AkureyrarAkademíunnar kjósa sér sjö manna fulltrúaráð er nefnist fulltrúaráð AkureyrarAkademíunnar. Formaður fulltrúaráðsins, sem jafnframt er formaður stjórnar stofnunarinnar, er kosinn á ársfundi úr röðum fulltrúaráðsmanna, til eins árs í senn. Fulltrúaráðið kýs gjaldkera og ritara úr eigin röðum.
Fræðimenn sem hafa lokið háskólaprófi og áhugamenn sem sinna fræði- eða ritstörfum, og eru fulltrúar í AkureyrarAkademíunni, geta gefið kost á sér í fulltrúaráð AkureyrarAkademíunnar. Nýir fulltrúar eru teknir inn á ársfundi. Fulltrúar greiða árlegt fjárframlag sem ársfundur ákveður hverju sinni. Atkvæðisréttur allra fulltrúa er jafn. Fulltrúi sem eigi er í skilum með fjárframlag sitt í upphafi ársfundar missir atkvæðisrétt sinn þar til skil hafa verið gerð.

9. gr.
Úrsögn.


Úrsögn úr fulltrúaráði skal vera skrifleg og sendast stjórn.

10. gr.
Fundahöld og atkvæðagreiðslur.


Ársfund skal halda að vori ár hvert. Til hans skal boðað með sannanlegum hætti með eigi skemmri fyrirvara en 14 dögum.
Ársfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað og a.m.k. 7 fulltrúar úr fulltrúaráði með lögheimili á Norðurlandi sækja fundinn. Verði ársfundur ólögmætur vegna ónógrar fundarsóknar skal stjórn boða til framhaldsársfundar innan 30 daga með 14 daga fyrirvara. Framhaldsársfundur er lögmætur án tillits til fundarsóknar.
Til almennra funda skal stjórn boða þegar henni þykir ástæða til. Skal boða til slíkra funda með minnst sjö daga fyrirvara.
Krefjist 3/7 hlutar aðila úr fulltrúaráði almenns fundar og tilgreini fundarefni í skriflegum tilmælum til stjórnar, þá skal stjórnin boða til slíks fundar innan 14 daga. Verði stjórnin eigi við tilmælum innan þess frests geta þeir er fundar óskuðu sjálfir boðað fund og skal þeim veittur aðgangur að skrá yfir aðila í fulltrúaráði.
Samþykktum á almennum fundum getur stjórn stofnunarinnar vísað til endanlegrar afgreiðslu á næsta ársfundi, ef hún telur þær skerða heildarhagsmuni stofnunarinnar eða víkja um of frá markaðri stefnu.

11. gr.
Dagskrá ársfundar.


    Á ársfundi skulu eftirtalin mál tekin fyrir:
    1. Skýrsla stjórnar.
    2. Endurskoðun reikninga.
    3. Upptalning nýrra fulltrúa.
    4. Kjör formanns og fulltrúaráðs.
    5. Fjárhagsáætlun og árgjald.
    6. Breytingar á skipulagsskrá.
    7. Önnur mál.

12. gr.
Stjórn.


Ársfundur stofnunarinnar kýs sér sjö manna fulltrúaráð úr röðum skráðra fulltrúa. Stjórn stofnunarinnar skal skipuð þremur einstaklingum úr fulltrúaráði, formanni, gjaldkera og ritara, til eins árs í senn. Formaður skal kosinn sérstaklega á ársfundi. Fulltrúarráð kýs úr sínum röðum gjaldkera og ritara. Þeir fulltrúar fulltrúaráðs, sem ekki eiga sæti í stjórn stofnunarinnar, mynda varastjórn hennar. Í fjarveru formanns tekur ritari stöðu hans. Ef stjórnarmaður hættir áður en kjörtímabili hans lýkur skal varamaður úr fulltrúaráði skipa sæti hans og ljúka kjörtímabilinu.
Stjórnin fer með öll málefni stofnunarinnar milli ársfunda, er æðsta vald í málefnum hennar og ber ábyrgð gagnvart fulltrúaráði. Stjórn mótar stefnu og starfstilhögun stofnunarinnar, vinnur að markmiðum stofnunarinnar og setur henni reglur.
Stjórnin skal halda gerðabók, en í hana skal rita skýrslu um allt það sem gerist á stjórnarfundum, almennum fulltrúaráðsfundum og ársfundum, og allar fundarsamþykktir orðréttar.
Stjórnin skal halda skrá um fulltrúa í stofnuninni hverju sinni.
Varamönnum í stjórn er heimilt að sitja stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt.
Kjörgengi til stjórnar eiga allir fulltrúar í fulltrúaráði, en þó skal þess gætt að seta þeirra í stjórn skarist ekki í veigamiklum atriðum við hagsmuni sem þeir kunna að hafa hjá öðrum rannsóknar- og fræðastofnunum.
Stjórnarfundir skulu boðaðir með a.m.k. þriggja daga fyrirvara. Á stjórnarfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum. Formanni stjórnar er skylt að boða fund ef tveir stjórnarmenn krefjast þess. Stjórnarmaður víkur af fundi sé fjallað um málefni er varða hann persónulega eða hann á hagsmuna að gæta. Stjórnin hefur heimild til að skipa nefndir um sérstök verkefni.
Hlutverk stjórnar er að tryggja stofnuninni viðunandi starfsumhverfi og starfsmönnum viðunandi starfsaðstöðu, og tryggja að stofnunin starfi eftir lögum. Stjórn ber að tryggja sjálfstæði stofnunarinnar. Stjórn ber að sjá til þess að stjórnun sjálfseignarstofnunarinnar og meðferð fjámuna hennar sé á hverjum tíma í réttu og góðu horfi og í samræmi við skipulagsskrá. Stjórn er í forsvari fyrir sjálfseignarstofnunina, hefur heimild til að skuldbinda hana út á við og veita öðrum umboð í samræmi við ákvæði skipulagsskrár.

13. gr.
Fjármál.


Fjámagna skal allan rekstur stofnunarinnar með virðulegum hætti. Stjórn og starfsfólk tryggir fjármögnun stofnunarinnar. Tekjur stofnunarinnar, auk vaxta af stofnframlagi, eru eftirfarandi: Opinber framlög, leigutekjur af húsnæði, tekjur fyrir þjónustu, framlög aðila samkvæmt samningum, framlög fyrirtækja og samtaka, tekjur af ráðstefnu- og námskeiðahaldi, styrkir og aðrar sértekjur. Tekjum og eignum stofnunarinnar skal eingöngu varið í hverjum þeim tilgangi sem samrýmist markmiðum hennar að fengnu samþykki stjórnar.

14. gr.
Endurskoðun reikninga.

Stjórn ræður löggiltan endurskoðanda til að yfirfara reikninga stofnunarinnar. Reikningsár stofnunarinnar er almanaksárið. Fyrsta reikningstímabil er frá stofnun sjálfseignarstofnunarinnar og til næstu áramóta. Verkefnisstjóri skal fyrir 1. desember ár hvert leggja rekstraráætlun næsta árs fyrir stjórn til afgreiðslu. Hann skal einnig sjá um að endurskoðaður ársreikningur berist Ríkisendurskoðun með tilskildum hætti eigi síðar en 30. júní ár hvert fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé stofnunarinnar hefur verið ráðstafað á því ári. Um reikningshald fer að öðru leyti eftir lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

15. gr.
Breytingar á skipulagsskrá.


Stjórn skal senda tillögur að breytingum á skipulagsskrá með fundarboði til ársfundar. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Sauðárkróki.

16. gr.
Slit sjálfseignarstofnunar.


Verði starfsemi stofnunarinnar lögð niður skal eignum hennar ráðstafað í samræmi við markmið stofnunarinnar eða skyldra markmiða. Starfsemi fulltrúaráðs og stofnunarinnar verður því aðeins lögð niður að tillaga þar að lútandi sé kynnt í fundarboði að ársfundi og samþykkt með atkvæðum 4/5 hluta atkvæðisbærra aðila úr fulltrúaráði. Slíkt skal svo borið skriflega undir embætti sýslumannsins á Sauðárkróki.

17. gr.
Staðfesting á skipulagsskrá


Leita skal staðfestingar sýslumannsins á Sauðárkróki á skipulagsskrá þessari.


Skipulagsskrá þessi staðfestist hér með samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, nr. 19/1988.

F.h. sýslumanns á Sauðárkróki - dagsetning og ár.
​
AkureyrarAkademían / Glerárgötu 34 / 600 Akureyri  / Sími: 833 9861