Síðastliðinn laugardag héldu AkureyrarAkademían ásamt Háskólanum á Akureyri í samstarfi við utanríkisráðuneytið ráðstefnuna Enginn er eyland: Ísland og alþjóðasamfélagið. Ráðstefnan heppnaðis vel og viljum við þakka Háskólanum á Akureyri fyrir gott samstarf, öllum fyrirlesurum fyrir áhugaverð og fræðandi erindi og síðast en ekki síst viljum við þakka þeim fjölmörgu gestum sem lögðu leið sína í Háskólann á Akureyri. Fimmtudaginn 17. mars síðastliðinn var síðasti fimmtudagsfyrirlesturinn á þessu starfsári haldinn. Laufey Haraldsdóttir lektor og deildarstjóri Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum flutti áhugavert erindi sem nefndist "Að setja sálina í pottana". Við þökkum Laufeyu fyrir frábæran fyrirlestur.
„Að setja sálina í pottana: ferðaþjónusta, staður, matur og margbreytileiki“. Laufey Haraldsdóttir, lektor og deildarstjóri Ferðamáladeildar Háskólans á Hólum. Eitt útbreiddasta hnattræna tískufyrirbæri samtímans eru eftirspurnin eftir hinu staðbundna, þar sem matur og matarmenning leikur mikilvægt hlutverk. Segja má að áherslan á hið staðbundna og sérstaka í matarmenningu sé ekki síður fylgifiskur hnattrænna afla en skyndibitamenningin. Hin sívaxandi ferðaþjónusta, sem er eitt skýrasta dæmi hnattvæðingarinnar, ýtir undir staðbundin sérkenni með eftirspurn eftir einstakri og framandi upplifun. Þannig má segja að eitt sé háð öðru í hinni meintu andstæðu, hnattvæðingu og staðbindingu. Á milli ríkja andstæðuvensl sem skilgreina hvort um sig. Hið staðbundna er skilgreint í hnattrænu samhengi og hið hnattræna er skilgreint út frá staðbundnum forsendum. Erindið fjallar um hugmyndir, viðhorf og hugsjónir tengdar staðbundnum mat í ferðaþjónustu í dreifbýli. Skoðað er hvað liggur að baki áherslum ferðaþjónustufólks á staðbundin matvæli og framreiðslu þeirra. Farið er yfir hvernig viðhorf og gildi taka á sig efnislega mynd í mat sem borinn er fyrir ferðamenn og í hvaða félagslega og menningarlega samhengi þau verða til. Þá er gluggað í hvernig þessi viðhorf og gildi eru túlkuð í orðræðu og daglegu máli - meðal annars um mat og matvælaframleiðslu. Rannsóknin, sem erindið byggir á, er þjóðfræðileg greining á hugmyndum að baki staðbundnum matvælum. Í anda þjóðfræðinnar er leitast við að lýsa viðhorfum fólks, greina hvaða merking liggur að baki og hvernig sú merking hefur orðið til. Fræðilegur bakgrunnur rannsóknarinnar er þverfaglegur og byggir á kenningum um sköpun staða og staðbindingu, hópa, samfélög og sjálfsmyndir, sem og kenningum um athafnir fólks og tengslanet.
Nú er dagskrá ráðstefnunnar Enginn er eyland: Ísland og alþjóðasamfélagið aðgengileg á vef AkureyrarAkademíunnar. Ráðstefnan verður haldin laugardaginn 19. mars í Háskólanum á Akureyri. Takið daginn frá!
|
Eldri fréttir
February 2023
|